Kona sem glataði sérstökum útskriftarhring í Maine-ríki Bandaríkjanna árið 1973 getur tekið gleði sína á ný. Hringurinn fannst nýverið í skógi í Finnlandi, um sex þúsund kílómetrum frá þeim stað þar sem hringurinn týndist.
Hin 63 ára gamla Debra McKenna var grunnskólanemandi þegar hún glataði hringnum í verslun í bænum Portland í Maine árið 1973. Hringurinn var upphaflega eign eiginmanns hennar sem gaf henni hringinn er þau voru kærustupar í skóla. Hjónin voru gift í 40 ár en eiginmaður Debru andaðist árið 2017.
Í frétt Guardiansegir að Debra hafi að mestu verið búin að gleyma hringnum áður en hann skilaði sér til hennar í síðustu viku. Það var fundvís Finni sem fann hringinn undir 20 sentimetra moldarlagi í skógi í Finnlandi í grennd við Kaarina, fyrr á árinu. Var hann á ferð um skóginn með málmleitartæki.
Á hringnum var áletrað nafn skólans sem Debra og eiginmaður hennar gengu í. Þá voru upphafsstafirnir S M einnig áletraðir á hringinn. Finninn sem fann hringinn hafði samband við nemendafélag fyrrverandi nemenda skólans sem komust að því að hringurinn hafði verið í eigu eiginmanns Debru. Því var hægt að koma honum í réttar hendur eftir 47 ár.
Ferðalag hringsins frá Maine til Finnlands er þó enn óútskýrt og verður það líklega áfram.
Hringur sem týndist í Bandaríkjunum fyrir 47 árum fannst í Finnlandi
