Handbolti

Kristinn: Held að öll lið á Íslandi dreymi um að hafa þann stuðning sem við erum með

Einar Kárason skrifar
Kristinn Guðmundsson í leik fyrr í vetur.
Kristinn Guðmundsson í leik fyrr í vetur. Vísir/Bára

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, var gífurlega ánægður með öruggan sigur ÍBV á toppliði Hauka í Vestmannaeyjum í dag. Lokatölur 36-28 Eyjamönnum í vil.

„Þetta var frábær frammistaða, engin spurning.”

„Við höfðum bullandi trú á því uppleggi sem við lögðum og þeim leikmönnum sem við vorum að tefla fram í dag. Við héldum okkur alveg ofsalega vel inni í okkar skipulagi og það skilaði okkur þessum sigri.”

Heimamenn náðu ágætis forskoti snemma leiks og svo virtist sem þeir ætluðu aldrei að láta það af hendi.

„Við höfum verið sveflukenndir í frammistöðu og mjög sveiflukenndir inni í leikjum. Á móti Aftureldingu síðast vorum við algjörlega að yfirspila þá en missum það svo niður í spennandi leik fyrir hálfleik. Siglum því svo vel heim. Vorum hræðilegir í fyrri hálfleik á móti FH í bikarnum um daginn en vinnum okkur inn í þann leik. Í dag héldum við þessu plani út leikinn og þar af leiðandi skilar það okkur þessum sigri.”

Fréttir af stuðningsmannahópi ÍBV,Hvítu Riddurunum, hafa mikið verið í umræðunni undanfarnar vikur en Kristinn segir fólki að horfa á það jákvæða sem þeir hafa fram að bjóða. 

„Við skulum ekki gleyma öllum jákvæðu hlutunum sem fylgja okkar stuðningsfólki. Ég horfði hérna upp í stúku fyrir leik og hugsaði með mér að við værum hérna í febrúar, ekki í úrslitakeppninni. Ég held að öll lið á Íslandi dreymi um að hafa þann stuðning sem við erum með. Ég myndi gefa hvað sem er fyrir að fá svona stuðning annarsstaðar. Ég fagna því að stuðningsmenn séu lifandi og skemmtilegir en það þarf náttúrulega bara að passa að hafa ákveðna hluti í lagi,” sagði Kristinn um stuðningsmenn liðsins, sem voru til fyrirmyndar á leiknum í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×