Skoska bardagakonan Joanne Calderwood, sem hefur oft æft hjá Mjölni, mun berjast um fluguvigtarbelti UFC í sumar.
Hún mun þá mæta meistaranum Valentinu Shevchenko sem hefur verið óstöðvandi og varið beltið sitt nú þegar þrisvar sinnum. Það er því fjall að klífa fyrir Jojo eins og hún er alla jafna kölluð.
Bardagi þeirra fer fram þann 6. júní í Perth í Ástralíu.
WE’RE HEADED BACK TO PERTH! @BulletValentina and @DRkneevil journey to Australia for #UFC251! https://t.co/UocfFo1z8hpic.twitter.com/HGWRUD4Y9Y
— UFC (@ufc) February 25, 2020
Calderwood hefur unnið þrjá af síðustu fjórum bardögum sínum hjá UFC. Hún er orðin 33 ára og hefur jafnt og þétt komið sér nær toppnum. Nú er hún einu skrefi frá honum.
Jojo og Sunna „Tsunami“ Davíðsdóttir eru miklar vinkonur og hafa margoft æft saman og spurning hvort þær geri það líka í aðdraganda þessa risabardaga.