Æsispennandi toppbarátta er í þýsku úrvalsdeildinni um þessar mundir og í kvöld fór fram leikur Borussia Mönchengladbach og Borussia Dortmund en tveimur stigum munaði á liðunum í 3. og 5.sæti deildarinnar þegar kom að leiknum í kvöld.
Belgíski sóknartengiliðurinn Thorgan Hazard kom gestunum í Dortmund yfir strax á 8.mínútu eftir stoðsendingu norska undrabarnsins Erling Haland. Leiddi Dortmund með einu marki í leikhléi.
Síðari hálfleikur var aðeins fimm mínútna gamall þegar Lars Stindl jafnaði fyrir heimamenn.
Leikurinn var jafn þar til á 71.mínútu þegar bakvörðurinn Achraf Hakimi skoraði eftir undirbúning Jadon Sancho.
Fleiri urðu mörkin ekki og mikilvægur sigur Dortmund staðreynd. Lyftu þeir sér þar með upp í 2.sæti deildarinnar, en þeir hafa einu stigi minna en Bayern Munchen sem á leik til góða á morgun gegn Augsburg.
