Síðustu ár hefur íbúum Hrunamannahrepps heldur verið að fækka en nú er öldin önnur, íbúum fjölgar og fjölgar, ekki síst á Flúðum og þar í kring. Eitt raðhús er nú í byggingu á Flúðum og svo verður byrjað á þremur nýjum raðhúsum á næstu viku. Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti er hæstánægð með íbúafjölgunina.
„Já, það er gaman að segja frá því að það er söguleg íbúafjölgun í Hrunamannahreppi. Við erum orðin 828, sem er hellings fjölgun frá því á síðasta ári, þá vorum við ekki nema 786. Skemmtilegast í þessu er að það er hellingur af nýfæddum börnum en frá 1. desember hafa fæðst
hjá okkur sex börn, þar af fjögur núna í febrúar og svo eitt í fyrradag“.
En af hverju er Hrunamönnum að fjölga svona mikið?
„Við búum í góðu samfélagi með góðar grunnstoðir, bæði leikskóla og grunnskóla sem eru frábærar stofnanir og svo er unga fólkið að snúa aftur heim“, segir Halldóra.

„Við náttúrulega förum á hjónaball og skemmtum okkur heilmikið og eins og gerist á hjónaböllum þá fer fólk vonandi heim á rauðu skýi og vonandi sjáum við barnasprenginu níu mánuðum seinna þannig að við getum farið að sjá enn þá meiri fjölgun í sveitarfélaginu“, segir Halldóra hlægjandi um leið hún bætir því við að hún bindi miklar vonir við hjónaballið og bíði eftir eftir útkomunni eftir níu mánuði.