Handbolti

Ómar, Janus og Arnór deildarmeistarar í Danmörku

Sindri Sverrisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon missti af stórum hluta tímabilsins vegna höfuðmeiðsla en hefur náð sér á strik.
Ómar Ingi Magnússon missti af stórum hluta tímabilsins vegna höfuðmeiðsla en hefur náð sér á strik. instagram/aalborg

Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason og Arnór Atlason urðu í kvöld deildarmeistarar í Danmörku þegar lið þeirra Aalborg vann Ribe-Esbjerg á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni.

Ómar Ingi skoraði þrjú mörk í kvöld og Janus Daði tvö en Arnór er aðstoðarþjálfari Aalborg. Liðið er nú með 39 stig eftir 22 leiki af 26, átta stigum á undan Holstebro sem á aðeins þrjá leiki eftir. Aalborg vann þrefalt á síðustu leiktíð og stendur vel að vígi fyrir úrslitakeppnina í ár.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði 5 mörk fyrir Ribe-Esbjerg en Rúnar Kárason ekkert. Liðið er í 7. sæti með 24 stig, fjórum stigum á undan SönderjyskE sem er í 9. sæti, sæti fyrir utan úrslitakeppnina.

Holstebro vann SönderjyskE 29-27 í kvöld en staðan var 27-27 þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk fyrir SönderjyskE en Sveinn Jóhannsson var ekki á meðal markaskorara.

Elvar Örn Jónsson skoraði 5 mörk fyrir Skjern og Björgvin Páll Gústavsson varði 2 af 14 skotum sem hann fékk á sig í marki liðsins, í 29-26 sigri á Nordsjælland. Skjern er í 5. sæti deildarinnar með 27 stig en Nordsjælland á botninum.

Þrír Íslendingar voru á ferðinni í 31-26 útisigri Kolding gegn Bjerringbro-Silkeborg en enginn þeirra var þó á meðal markaskorara. Þráinn Orri Jónsson var í liði Bjerringbro en þeir Árni Bragi Eyjólfsson og Ólafur Gústafsson með Kolding. Kolding er í 12. sæti af 14 liðum og á leið í umspil um að forðast fall en Bjerringbro-Silkeborg er í 4. sæti með 27 stig líkt og Skjern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×