Deontay Wilder hefur nýtt rétt sinn til þess að skora Tyson Fury aftur á hólm og þeir munu því berjast í þriðja sinn í sumar.
Þeir börðust í Las Vegas á dögunum þar sem Fury pakkaði Wilder saman. Hornið hans Wilder kastaði inn hvíta handklæðinu í sjöundu lotu.
Í samningi félaganna var klausa um að fá annan bardaga og það nýtti Wilder sér og þeir munu nú berjast þann 18. júlí í MGM Grand Garden Arena í Las Vegas.
Tapið þann 22. febrúar síðastliðinn var fyrsta tap á ferli Wilder og hann vill eðlilega hefna fyrir það. Fyrsti bardagi félaganna var dæmdur jafntefli.

