Það er ekki mikið af efni í boði næstu vikurnar fyrir áhugafólk um íþróttir. Enska boltanum hefur verið frestað ásamt Meistaradeildinni og öllum sterkustu knattspyrnudeildum Evrópu.
Í körfuboltanum er búið að fresta NBA-deildinni, Evrópudeildinni og öllum stærstu atvinnumannadeildum Evrópu. Þá er búið að fresta þýsku deildinni í handbolta og öllum sterkustu handboltadeildum Evrópu, auk þess sem búið er að fresta stórmótum í golfi, NHL-deildinni í íshokkí og ýmsum fleiri íþróttamótum.
Einnig er búið að fresta öllum mótum á vegum KSÍ, HSÍ og KKÍ á Íslandi, þar á meðal Olís-deildinni í handbolta og Dominos-deildinni í körfubolta.
Hvað er þá eftir?
Í fótbolta er enn spilað í öllum deildum í Tyrklandi, Rússlandi, Serbíu, Ungverjalandi og Úkraínu. Auk þess er spilað í öllum deildum í Suður-Ameríku í dag fyrir utan Ekvador og Paragvæ.
Þá er auðvitað spilað í körfubolta í þessum sömu löndum, auk þess sem verið er að spila körfubolta í Japan og þá er einn leikur á dagskrá í bresku deildinni í körfubolta í kvöld.
Gibraltar Open mótið í Snóker er í fullum gangi en þó var tilkynnt að það yrði leikið án áhorfenda frá og með deginum í dag. Eitt stærsta Badminton-mót heims, Enska Meistaramótið, fer einnig fram í dag og fara fram undanúrslit í bæði karla- og kvennaflokki.
Þá er búið að gefa það út að Rúgbý-deildin í Bretlandi fari fram um helgina. Ekki er búið að koma á samkomubanni í Englandi og var ákvörðun Enska knattspyrnusambandsins um að fresta mótum á vegum þess til 4. apríl tekin af sambandinu sjálfu án aðkomu stjórnvalda.
Hvaða íþróttaviðburðir eru enn í gangi?
Ísak Hallmundarson skrifar
