Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, stendur uppi sem sigurvegari næturinnar í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í haust. Demókratar í sex ríkjum Bandaríkjanna greiddu atkvæði í gær og sigraði Biden í hið minnsta fjórum þeirra.
Niðurstaðna er enn að vænta úr tveimur ríkjum en sem stendur er keppinautur Biden, öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders, þar með forystu. Forskot Sanders í Washingtonríki er þó ekki nema nokkur þúsund atkvæði og eru stjórnmálaspekingar vestanhafs því ekki tilbúnir að lýsa Sanders sigurvegara þar.
Ef fer sem horfir bætti Biden við sig 153 kjörfundarfulltrúum í nótt og Sanders 89. Alls þarf 1993 fulltrúa til að tryggja sér útnefningu Demókrataflokksins á landsfundi hans í sumar. Sem fyrr segir á þó enn eftir að klára talninguna og eru 110 kjörfundarfulltrúar enn í pottinum. Því gæti myndin breyst eitthvað eftir því sem fram líða stundir.
Framboð Biden hefur verið á miklu skriði undanfarna daga og vikur. Eftir slakt gengi í fyrstu þremur ríkjunum tókst Biden að snúa taflinu sér í vil í Suður-Karólínu og hefur síðan þá sópað til sín hverju ríkinu á fætur öðru. Eftir gott gengi á Ofurþriðjudeginum svokallaða í síðustu viku, þar sem greidd voru atkvæði í 14 ríkjum samtímis, tók Biden forystu í forvalinu. Það skilaði honum ekki aðeins fjölda kjörfundarfulltrúa heldur stuðningi mótframbjóðenda hans sem hafa lagst á sveif með varaforsetanum fyrrverandi að undanförnu; eins og Pete Buttigieg, Amy Klobuchar, Michael Bloomberg og Cory Booker.
Næst ganga demókratar að kjörborðinu á Norður-Maríönueyjum á laugardag þar sem sigur veitir 6 fulltrúa. Næsta stóra próf er hins vegar á þriðjudaginn í næstu viku. Þá er kosið í fjórum ríkjum samtímis; Flórída, Arizona, Illinois og Ohio sem samanlagt veita 577 kjörfundarfulltrúa. Þar er Biden jafnframt spáð góðu gengi.
Biden-lestin á fullu skriði

Tengdar fréttir

Kamala Harris lýsir yfir stuðningi við Biden
Öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins, Kamala Harris, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden í forvali flokksins.

Biden fær byr í seglin
Forval Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefur tekið stakkaskiptum á einungis nokkrum dögum.

Bloomberg hættir og styður Biden
Michael Bloomberg kveður sviðið.