Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og sérsamböndin vinna náið með heilbrigðisyfirvöldum í baráttunni við Covid-19 veiruna og héldu stóran fund í gær en niðurstöður hans koma fram á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Ítalir hafa bannað alla íþróttaviðburði hjá sér í mánuð, það er áhofendabann í Danmörk og fleiri Evrópulönd hafa sett fjöldatakmarkanir á viðburði. Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa tekið mjög fast á málum hér á landi eftir að upp komu mörg smit en það er ekki enn komið að því að fylgja fordæmi Dana.

Þórólfur Guðnason greindi frá því að náið er fylgst með upplýsingum sem berast erlendis frá og embættið er í samstarfi við önnur lönd.
„Þá er fylgst grannt með þróun og útbreiðslu hér á landi. Þó að búið sé að lýsa yfir neyðarstigi á Íslandi þá hefur ekki verið gripið til þess úrræðis að banna samkomur. Fulltrúar embættis landlæknis og almannavarna leggja því ekki til að fresta eða hætta við íþróttaviðburði miðað við stöðuna eins og hún er í dag,“ segir í frétt á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Þar kemur líka fram að fulltrúar ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ hafa komið sér upp samráðsvettvangi sem mun funda reglulega og fylgjast með framvindu mála. Einnig er fyrirhugað að funda með fulltrúum almannavarna með reglubundnum hætti.