Lífið

Fyrsta sýnishorn úr sjónvarpsþættinum Eurogarðurinn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Einvala lið leikara fer með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Eurogarðurinn sem fara í loftið í lok næsta mánaðar.
Einvala lið leikara fer með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Eurogarðurinn sem fara í loftið í lok næsta mánaðar. Myndir/Lilja Jónsdóttir

Vísir frumsýnir hér fyrsta sýnishornið úr þáttaröðinni Eurogarðurinn, sem fara í sýningu á Stöð 2 þann 27. september. Um er að ræða íslenska leikna sjónvarpsþætti með einvala liði leikara. Með helstu hlutferk fara Jón Gnarr, Anna Svava Knútsdóttir, Auðunn Blöndal, Steindi Jr. og Dóri DNA en mörg fleiri kunnugleg andlit munu birtast á skjánum í þessum glænýju þáttum.

Þættirnir eru átta talsins og gerast í Húsdýragarðinum. Eurogarðurinn fjallar um drykkfelldan miðaldra braskara með vafasaman viðskiptaferil sem kaupir Húsdýragarðinn en karakterinn er leikin af Jóni Gnarr. Hann hefur stórkostlegar hugmyndir um framtíð garðsins sem hann kallar Eurogarðinn, sem hann sér fyrir sér ná upp í sömu stærðargráðu og Disney-World.

Lykilatriði í framkvæmd hans á stórfenglegum hugmyndum sínum er að virkja starfsfólk garðsins með sér. Þau eiga því miður ekki auðvelt með að sætta sig við nýjan eiganda og þær hugmyndir sem hann hefur um framtíð Húsdýragarðsins. Starfsfólkið er mislitur hópur fólks með ólíkar væntingar um lífið og framtíðina og því ekki ólíklegt að þau verði hindrun í vegi hans.

Fyrsta sýnishornið úr þáttunum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Eurogarðurinn - fyrsta sýnishorn

Um leikstjórn sér Arnór Pálmi Arnarson sem leikstýrði meðal annars Hæ Gosi, Ligeglad og Áramótaskaupinu 2018. Þættirnir eru framleiddir af Glassriver fyrir Stöð 2 en handritið skrifuðu Anna Svava Knútsdottir, Auðunn Blöndal, Steindi Jr., Dóri DNA og Arnór Pálmi.


Tengdar fréttir

„Viðbjóðslega fyndinn karakter“

Tökur á skemmtiþættinum Eurogarðurinn eru á enda og fer hann í loftið á Stöð 2 í haust. Þættirnir eiga að vera mjög svo óviðeigandi og óþægilegir á köflum og hræðilega fyndnir líka. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×