Umfjöllun og viðtöl: ÍBV 1-0 Þór/KA | Eyjakonur á miklu skriði

Einar Kárason skrifar
Gestirnir fagna.
Gestirnir fagna. vísir/daníel

Sólin skein og völlurinn iðagrænn þegar ÍBV tók á móti Þór/KA á Hásteinsvelli. Heimastúlkur höfðu fyrir leik verið á góðri siglingu og stigasöfnun til fyrirmyndar en gestirnir frá Akureyri höfðu ekki sömu sögu að segja. Fyrri leikur liðanna í sumar endaði með sannfærandi sigri ÞóR/KA svo Eyjastúlkur höfðu harm að hefna.

Leikurinn fór fjöruglega af stað og byrjuðu ÍBV leikinn mun betur. Karlina Miksone átti fyrsta tækifæri leiksins eftir um mínútu en Lauren Amie Allen varði skot hennar. Heimaliðið réði lögum og lofum í byrjun leiks og ógnuðu marki gestanna, þó án þess að skapa sér nein alvöru tækifæri. Karlina var aftur á ferðinni eftir um stundarfjórðung en laust skot hennar hafnaði í stönginni.

Um miðbik fyrri hálfleiks vöknuðu Þór/KA til lífsins og tóku yfir. Hulda Ósk Jónsdóttir átti tvær tilraunir með stuttu millibili en boltinn fjarri markrammanum. Madeline Rose Gotta átti fínt skot úr teig stuttu síðar en boltinn af varnarmanni og þaðan rétt framhjá markinu.

Sótt var úr vestri í austur og öfugt þennan fyrri hálfleikinn en hvorugu liðinu tókst að trufla markmennina almennilega og því gengu liðin til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Margrét Árnadóttir átti fyrsta færið en Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving í marki ÍBV varði fínt skot hennar í horn.

Hulda Ósk var með sprækari leikmönnum gestanna í dag og skapaði hættu við mark ÍBV en það vantaði hjálp til að reka síðasta naglann í sóknirnar. Sem dæmi um það er þegar Karen María Sigurgeirsdóttir fékk boltann á góðum stað í teig ÍBV en skot hennar hátt yfir markið.

Þegar um 20 mínútur eftir lifðu leiks var Karlina nálægt því að taka forustuna fyrir heimaliðið en frábært skot hennar fyrir utan teig hafnaði í þverslánni, en Lauren í markinu átti aldrei möguleika. Auður í markinu hinumegin þurfti svo að taka á sínum þegar Hulda Ósk átti gott vinstri fótar skot úr teig.

Svo virtist sem hvorugu liðinu ætlaði að takast að vinna þennan leik en það breyttist þegar tæpar 5 mínútur voru eftir. Olga Selcova tók þá hornspyrnu frá hægri og Karlina reis hæst í teignum og skallaði boltann í hornið fjær. Eyjastúlkur komnar yfir.

Norðanstúlkur reyndu eins og þær gátu að jafna leikinn, sóttu og sóttu, en Eyjavörnin hélt og þrátt fyrir rúmlega 7 mínútur í uppbótartíma náðu leikmenn Þór/KA ekki að koma boltanum í netið.

Leiknum lauk því með 1-0 sigri í hörkuleik, þar sem sjúkraþjálfarar beggja liða höfðu í nægu að standa.

Af hverju vann ÍBV?

Meðbyrinn er með Eyjaliðinu þessa stundina og þegar stigasöfnunin er að ganga vel detta þessir 50/50 leikir oftar en ekki með því liði. Það var seiglan og krafturinn sem skilaði þessum stigum í dag.

Hverjar stóðu upp úr?

Olga Selcova, Karlina Miksone og Hanna Kallmaier voru virkilega öflugar í liði ÍBV. Olga og Karlina framar á vellinum og Hanna stóð eins og klettur fyrir framan öftustu línu. Hægt væri að nefna flestar úr þessu ÍBV liði.

Hjá Þór/KA var Hulda Ósk Jónsdóttir sprækust, sér í lagi fram á við en Heiða Ragney Viðarsdóttir átti afbragðsleik á miðjunni hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri en þau voru í dag. Færanýting og lokasendingar fá D í kladdann í dag.

Hvað gerist næst?

ÍBV á útileik gegn Stjörnunni á meðan Þór/KA fær Val í heimsókn.

Birkir Hlynsson: Liðið sem vildi þetta meira vann

Birkir Hlynsson, annar þjálfara ÍBV, var að vonum ánægður í leikslok. ,,Þetta var svona 50/50 leikur og liðið sem vildi þetta meira í dag, tók þetta.”

,,Þetta eru sterkar stelpur og við líka. Við báðum um að gefið væri allt í þetta. Það var gert og þetta datt okkar megin,” en leikið var af hörku í dag og mikið um samstuð í leiknum.

Eyjaliðið hefur verið á góðri siglingu undanfarið og stigasöfnun til fyrirmyndar eftir erfiða byrjun á mótinu. ,,Já, við vissum það að þegar við fengum allar stelpurnar hingað til Eyja þá vissum við að við værum með fullt af efnivið og mér finnst við bara verið búin að spila ágætlega úr því. Það tók smá tíma og þetta COVID dæmi kom inn í þetta og við þurftum smá tíma til að spila okkur saman. Við höfum gert það og erum við (þjálfararnir) mjög ánægðir.”

Spurður hvort hann horfi ekki björtum augum á framhaldið var svarið einfalt: ,,Jú, mjög björtum,” sagði Birkir glottandi í lokin.

Andri Hjörvar: Ógeðsleg tilfinning

,,Ótrúlegt en satt, að við skulum ekki hafa skorað allavega eitt mark í þessum leik. Það er ótrúlegt,” sagði Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þór/KA, eftir leik. ,,Svo er það bara rýtingur í hjartað að fá á okkur eitt þarna undir lokin úr föstu leikatriði. Þetta svíður alveg svakalega. Ég viðurkenni það. Þetta er ógeðsleg tilfinning.”

ÍBV byrjaði leikinn betur en hægt og rólega tóku gestirnir yfir en án þess að setja mark sitt á leikinn. ,,Já, hárrétt hjá þér. Þær byrjuðu miklu betur og það tók okkur smá tíma að finna jafnvægið og setup’ið hjá þeim en við brugðust vel við, og það er rétt hjá þér, við spiluðum frábærlega vel á köflum. Mér fannst við stjórna leiknum. Við losuðum okkur vel undan pressu og vorum að spila vel. Við komumst í þessi færi, trekk í trekk í trekk í trekk í trekk. Það er bara ótrúlegt að við skulum ekki hafa sett eitt mark. Þannig að já, svekkelsi.”

,,Við þurfum að skora mörk til að vinna leiki,” sagði Andri um dræma stigasöfnun upp á síðkastið. ,,Það er ekki flóknara en það. Við getum sætt okkur við að fá á okkur eitt og eitt, hér og þar en við þurfum að skora fleiri en andstæðingurinn. Þar hefur þetta aðeins verið að hiksta og ég held að það sé aðal ástæðan. Stelpurnar hafa verið að spila frábærlega á köflum í síðustu leikum og við verðum að trúa á það að við getum gert þetta og mörkin koma. Annars getum við bara hætt þessu.”

Andri gerði nokkrar breytingar á liði sínu fyrir leikinn. Blaðamaður spurði um ástæðu fyrir breytingum og/eða hvort verið væri að leita eftir réttu formúlunni. ,,Bæði. Þetta eru margir leikir og erfitt prógram. Þær eru búnar að æfa mjög vel og það er þreyta hér og þar. Við erum að hugsa um leikmennina okkar og svo stillum við náttúrulega upp því liði sem við teljum vera sigurstranglegast í hverjum leik. Andstæðingurinn er alltaf mismunandi þannig að það er ekkert gefið að stilla upp sama liðinu,” sagði Andri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira