KR - Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu – hafa kallað hinn unga Hjalta Sigurðsson til baka úr láni frá Lengjudeildarliði Leiknis Reykjavíkur. Hjalti var lánaður þangað fyrir tímabilið eftir að hafa staðið sig vel með Leikni á síðustu leiktíð.
Leiknir greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í dag.
Hjalti kallaður heim!
— Leiknir Reykjavík FC (@LeiknirRvkFC) August 25, 2020
KR hefur kallað @HjaltiSig00 aftur á Meistaravelli. Hjalti var hjá okkur á láni annað tímabilið í röð.
Við þökkum Hjalta kærlega fyrir okkur og óskum honum alls hins besta í búningi KR! Áfram Hjalti! #StoltBreiðholts pic.twitter.com/2Bcv6KVZcB
Sem stendur er Kennie Knak Chopart eini „náttúrulegi“ hægri bakvörður KR-liðsins en bæði Aron Bjarki Jósepsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson geta leyst þá stöðu með prýði. Það virðist þó sem Rúnar Kristinsson – þjálfari KR – vilji hafa mann sem er vanari að spila bakvörð til taks.
Á síðustu leiktíð lék Hjalti 18 leiki í liði Leiknis en vegna meiðsla hefur hann aðeins spilað sex leiki með Leikni í Lengjudeildinni í sumar. Þá á Hjalti að baki þrjá leiki með KR í Pepsi Max deildinni sem og einn með KV í 3. deildinni.
Hjalti getur einnig leikið á miðjunni en þjálfarateymi KR sér hann fyrir sér sem framtíðar hægri bakvörð liðsins herma heimildir Vísis.
Íslandsmeistarar KR eru sem stendur í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar. Þeir mæta toppliði Vals á Meistaravöllum klukkan 17:00 á morgun, miðvikudag.
Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.