Lögreglan hefur ekki enn haft hendur í hári Michael Forest Reinoehl, sem grunaður er um að hafa skotið mann til bana í Portland í Bandaríkjunum, aðfaranótt sunnudagsins. Hann er sakaður um að hafa skotið Aaron Danielson, til bana á götum borgarinnar eftir að bílalest stuðningsmanna Donald Trump, forseta, keyrði í gegnum borgina.
Danielson var með hatt til stuðnings öfgasamtakanna Patriot Prayer en vinir hans segja hann ekki hafa verið öfgamann. Hann hafi þó haft gaman af því að hrista upp í hlutunum. Þau segja hann alls ekki hafa verið einhvers konar rasista, eins og hann hafi verið málaður á samfélagsmiðlum.
Meðlimir Patriot Prayer hafa átt í átökum við aðgerðasinna í Portland um árabil.
Samkvæmt frétt Portland Tribune, þar sem blaðamenn ræddu við vini Danielson, hafði hann mætt á önnur gagnmótmæli í Portland á föstudagskvöldinu. Þar var Reinoehl einnig staddur.
Vitni segja að Danielson hafi verið að ögra vinstri sinnuðum mótmælendum og hvetja aðra til að veitast að þeim.

Reinoehl mætti einnig á önnur mótmæli á föstudagskvöldinu. Það voru tiltölulega lítil mótmæli við íbúð borgarstjóra Portland. Með honum var tólf ára dóttir hans og bar hún hafnaboltakylfu á mótmælunum, samkvæmt frétt Oregonian.
Reinoehl er 48 ára gamall. Hann hefur lengi verið viðloðinn mótmælin í Portland og var í sumar ákærður, meðal annars, fyrir að vera með hlaðna byssu á almannafæri. Hann er sömuleiðis eftirlýstur vegna götukappaksturs í júní, sem tengist einnig 17 ára syni hans.
Hann var þá sakaður um að aka undir áhrifum fíkniefna, ólöglega eign byssu og fyrir að aka án réttinda og ótryggður. Dóttir hans, sem var þá ellefu ára, var með honum í bílnum.
Á laugardagskvöldinu, nokkrum klukkustundum áður en hann var skotinn til bana, sást Danielson á gangi með vini sínum, Chandler Pappas, og báðir voru þeir með hatta merkta Patriot Prayer og vopnaðir hnífum og málningarbyssum. Þeir sögðust ætla að tryggja öryggi áðurnefndrar bílalestar.
Pappas var með Danielson þegar hann var skotinn.
Hér að neðan má sjá myndband af skotárásinni, sem aðgerðasinni fangaði þegar hann var í beinni útsendingu. Vert er að vara viðkvæma við myndbandinu.