Þegar Frú Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan hittust vegna leiðtogafundarins í Höfða árið 1986, náði Ragnar Axelsson ljósmyndari af þeim einstökum myndum. Vel fór á með forsetunum en stór og mikill frakki Reagan vakti bæði athygli ljósmyndarans sem og annarra sem voru þar viðstaddir.
„Ég velti því fyrir mér hvort að hann hafi verið í skotheldu vesti, eða hvort hann hefði verið í einhverju undir,“ sagði RAX um frakkann í fyrsta þættinum af Augnablik. Sjálfum fannst hann jakkinn flottur.
„Svo heyrði ég seinna að þetta hafi verið frakki Péturs í Lýsi, sem var stór maður. Það er kalt og það vantaði frakka og hann hafi lánað þennan frakka. Það er víst enn óleyst gáta hver átti frakkann,“ segir RAX en er þó fullviss um að forsetinn hafi ekki átt hann sjálfur. Ken Adleman skrifaði bók um leiðtogafundinn og nefndi þar að hann furðaði sig á því að hafa aldrei aftur séð forsetann klæðast þessum frakka.
Örþættirnir RAX Augnablik birtast alla sunnudaga hér á Vísi og á Stöð 2 Maraþon og fjalla þeir um sögurnar á bak við þekktustu myndir ljósmyndarans. Þátturinn um Vigdísi og Reagan er tæpar fjórar mínútur og má horfa á hann í heild sinni hér fyrir neðan.
Nýr þáttur kemur á Vísi á morgun en hér fyrir neðan má sjá stiklu úr þessari þáttaröð.