Kristianstads DFF vann dramatískan sigur á Pitea IF í sænsku úrvalsdeildinni rétt í þessu. Lokatölur 3-2 útisigur Kristianstads, sigurmarkið kom í blálokin.
Svava Rós Guðmundsdóttir var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn fyrir Kristianstads sem komst yfir á 9. mínútu með marki frá Therese Sessy Asland. Sex mínútum síðar jafnaði Pitea leikinn en Tilda Persson kom Kristianstads yfir á nýjan leik á 32. mínútu. Staðan í hálfleik 1-2.
Heimakonur í Pitea jöfnuðu metin á 60. mínútu og allt stefndi í jafntefli þar til Eveliina Summanen tryggði Kristianstads stigin þrjú á síðustu sekúndum leiksins. Lokatölur 2-3.
Kristianstads, sem Íslendingurinn Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, er nú í þriðja sæti í deildinni með 27 stig, fimm stigum á eftir toppliði Rosengard.