Tíu manns hið minnsta eru látnir eftir að sprengjuárás var gerð á bílalest afganska varaforsetans Amrullah Saleh í höfuðborginni Kabúl.
BBC segir frá því að Saleh, sem áður stýrði leyniþjónustu landsins, hafi særst lítillega, en hann var á leiðinni til vinnu þegar árásin var gerð.
Árásin er gerð á sama tíma og formlegar viðræður afganskra stjórnvalda og leiðtoga Talibana eru í þann mund að hefjast. Verður fundað í Katar og er vonast til að hægt verði að ná samkomulagi sem myndi fela í sér endalok margra ára óaldar í landinu.
Saleh hefur í gegnum árin verið hávær í andstöðu sinni við hreyfingu Talibana, en Talibanar hafa hins vegar hafnað því að bera ábyrgð á árásinni í morgun.
Saleh ræddi við fjölmiðla nokkru eftir árásina og sagðist þá hafa sloppið með lítilsháttar brunasár á annarri hendi. Hét hann því að halda stjórnmálalegri baráttu sinni áfram.
Lífverðir varaforsetans voru í hópi látinna og særðra.