Handbolti

Strákarnir okkar spila þrjá mótsleiki við Portúgal á níu dögum

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið varð í 11. sæti á EM í janúar en Portúgal náði þar 6. sæti.
Íslenska landsliðið varð í 11. sæti á EM í janúar en Portúgal náði þar 6. sæti. vísir/epa

Nú er orðið ljóst að Ísland byrjar HM í handbolta í Egyptalandi í janúar á því að mæta Portúgal 14. janúar.

Portúgalar náðu 6. sæti á EM á þessu ári, þegar Ísland varð í 11. sæti, en hafa ekki spilað í lokakeppni HM síðan árið 2003.

Ísland verður farið að þekkja portúgalska liðið ansi vel í janúar því áður en að HM kemur eiga liðin að mætast tvisvar í undankeppni HM. Fyrri leikurinn ætti að fara fram í Portúgal 6. janúar og sá seinni á Íslandi 9. janúar, áður en strákarnir okkar halda til Norður-Afríku. 

Leikjum í undankeppni EM, þar sem Ísland mætir einnig Litháen og Ísrael, var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Undankeppnin hefst í nóvember og henni lýkur í maí.

Leikið á tveggja daga fresti á HM

Eftir leikinn við Portúgal á HM mætir Ísland svo Alsír 16. janúar og loks Marokkó tveimur dögum síðar.

Komist íslenska liðið í milliriðla, eins og binda má vonir við, mun það spila gegn þremur liðum úr E-riðli (Austurríki, Frakkland, Noregur og Ameríkuþjóð) dagana 20., 22. og 24. janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×