Sjóliðar á vegum Evrópusambandsins fóru í dag um borð í tankskip sem var á leið til Líbíu. Áhöfn skipsins var meinað að sigla til Líbíu og skipað að breyta um stefnu, eftir að í ljós kom að skipið var notað til að flytja eldsneyti fyrir orrustuþotur. Það er gegn vopnasölubanni Sameinuðu þjóðanna gagnvart Líbíu.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að skipinu, MV Royal Diamond 7 sem er skráð í Marshalleyjum, hafi verið siglt frá Sharjah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og farminn hafi átt að flytja í land í Benghazi í Líbíu. Það var stöðvað um 150 kílómetra frá ströndum Líbíu.
Sameinuðu þjóðirnar hafa veitt Evrópusambandinu umboð til að stöðva vopna- og annars konar hernaðarsendingar til Líbíu. Því var áhöfn skipsins sagt að sigla til hafnar í Evrópu þar sem frekari rannsókn mun fara fram.
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sökuðu þó fyrr í vikunni bakhjarla stríðandi fylkinga í Líbíu um að senda vopn og málaliða til landsins í trássi við áðurnefnt bann. Bannið sjálft sögðu sérfræðingarnir að væri alls ekki að virka sem skyldi.
Í Líbíu berjast Líbíski þjóðarherinn (LNA), undir stjórn hershöfðingjans Khalifa Haftar, við ríkisstjórn landsins, sem viðurkennd er af Sameinuðu þjóðunum. Haftar nýtur stuðnings Rússa, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Jórdaníu. Ríkisstjórnin er studd af Tyrkjum og Katar.
Mikil óreiða hefur ríkt í Líbíu frá því að einræðisherranum Moammar Gadhafi var velt úr sessi, með stuðningi Atlantshafsbandalagsins, árið 2011. Nú stjórna fylkingarnar tvær mismunandi hlutum landsins.