Íslenski boltinn

Gunnhildur: Sem betur fer þá er hún í marki

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er þaulreynd landsliðskona.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er þaulreynd landsliðskona. vísir/skjáskot

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ánægð í leikslok með 0-3 sigur á sínum gömlu félögum í Stjörnunni á Samsung vellinum í dag.

„Þetta var góður sigur. Stjarnan voru þéttar og erfitt að brjóta þær niður. Það var mikilvægt að fá mark snemma því þá gátum við slakað aðeins á. Svo þurftum við bara að vera þolinmóðar og bíða eftir öðru markinu. Mér fannst Stjarnan frábærar í dag. Við þurftum bara að einbeita okkur að okkur, spila okkar bolta og vera ekki að stressa okkur of mikið og þá kom þetta,“ sagði Gunnhildur Yrsa eftir sinn fyrsta keppnisleik gegn uppeldisfélagi sínu.

Gunnhildur hrósaði sínum fyrrum félögum fyrir flottan leik. Aðspurð að því hvað það væri sem skilaði sigri gegn erfiðum andstæðingi sagði Gunnhildur.

„Þolinmæði. Við vorum þolinmóðar í dag og vorum ekki að stressa okkur. Þær voru, eins og ég sagði, þéttar fyrir og erfitt að brjóta þær niður. Það var mjög mikilvægt að fá mark snemma svo við gátum aðeins slakað á. Það er oft svoleiðis ef maður skorar ekki mark strax þá fer maður að stressa sig og í svona þéttum leik þá getur það gert manni erfiðara fyrir.“

Eins og margir vita þá spilar kærasta Gunnhildar, Erin Mcleod, sem markvörður hjá Stjörnunni. Gunnhildur er ekki viss hvort að kvöldið í kvöld verði erfitt heima fyrir.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég spila á móti henni. Sem betur fer þá er hún í marki þannig ég átti ekki mikið contact á hana,“ sagði Gunnhildur og hló.

„Þegar maður stígur inn á völlinn þá gleymir maður þessu. Það er líka alveg skrítið að spila á móti Stjörnunni en þegar maður stígur á völlinn þá gleymist þetta. Maður vill bara spila fótbolta og gera sitt besta. Það verður kannski erfitt kvöld í kvöld hjá okkur en maður verður bara að peppa hana upp og einbeita sér að næsta leik,“ sagði Gunnhildur Yrsa að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×