Fótbolti

Valdimar hrifinn af sóknarbolta Strömsgodset

Sindri Sverrisson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson með treyju Strömsgodset.
Valdimar Þór Ingimundarson með treyju Strömsgodset. mynd/godset.no

Valdimar Þór Ingimundarson segir að Strömsgodset spili góðan sóknarfótbolta og því hafi hann ákveðið að ganga í raðir félagsins.

Valdimar var í gær kynntur sem nýr leikmaður Strömsgodset en hann samdi við norska félagið til þriggja ára. Íþróttastjóri félagsins, Jostein Flo, fagnaði komu Valdimars og því góða sambandi sem komið hefði verið á á milli Strömsgodset og Fylkis, en Valdimar hittir fyrir hjá félaginu vin sinn Ara Leifsson sem fór frá Fylki í mars.

Valdimar hefur skorað átta mörk og lagt upp tvö í 14 leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar, eftir að hafa skorað sjö mörk og í heild komið að 13 mörkum í fyrra. Hann ætlar sér að skapa mörk fyrir Strömsgodset sem er í 12. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég valdi að koma til Strömsgodset af því að ég veit að hér er spilaður góður sóknarfótbolti sem hentar mér vel. Ég er snöggur leikmaður með sprengikraft, og nýt þess að skora og leggja upp mörk. Þegar ég fæ boltann vil ég ólmur fara hratt fram á við,“ sagði Valdimar á vef Strömsgodset.

Valdimar, sem er 21 árs gamall, hefur verið í Noregi síðustu daga og æfir með Strömsgodset í fyrsta sinn í dag. Næsti leikur liðsins er gegn Sandefjord á útivelli á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×