Heil umferð fór fram í Pepsi Max-deild karla í gær. Alls voru nítján mörk skoruð í leikjunum sex.
Valur steig stórt skref í átta að Íslandsmeistaratitlinum með 1-4 sigri á FH í Kaplakrika. Valsmenn eru með ellefu stig forskot á toppi deildarinnar. Birkir Már Sævarsson skoraði tvö mörk fyrir Val og hefur skorað þrjú mörk í síðustu þremur leikjum.
Breiðablik vann Stjörnuna, 2-1, í grannaslag á Kópavogsvelli og komst þar með upp í 3. sæti deildarinnar. Alex Þór Hauksson kom Stjörnumönnum yfir með glæsilegu marki en mörk frá Viktori Karli Einarssyni og Thomas Mikkelsen (víti) tryggðu Blikum stigin þrjú.
Þrátt fyrir að vera manni fleiri í 52 mínútur tókst KR ekki að vinna nýliða Gróttu á heimavelli. Lokatölur 1-1. Sömu úrslit urðu í leik KA og HK sem fór fram í snjókomu á Akureyri.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk þegar ÍA lagði Fjölni að velli, 1-3, í Grafarvoginum. Þetta var annar sigur Skagamanna í röð en Fjölnismenn eiga enn eftir að vinna leik í sumar.
Þá sigraði Fylkir Víking, 2-1, og komst þar með upp í 4. sæti deildarinnar. Víkingar hafa ekki unnið leik í tvo mánuði.
Mörkin nítján úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir neðan.