Karlalið KR í körfubolta hefur bætt við sig þriðja erlenda leikmanninum fyrir komandi tímabil í Dominos-deildinni.
KR tilkynnti á dögunum um komu Króatans Ante Gospic og hins bandaríska Ty Sabin sem var stigahæstur í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Auk þeirra bætist Roberts Stumbris frá Lettlandi í hópinn, en þetta staðfesti Páll Kolbeinsson gjaldkeri KR við Vísi í dag.
Stumbris hefur leikið með Riga í heimalandinu síðustu ár, í lettnesku deildinni og Meistaradeild Evrópu, sem og í hinni austur-evrópsku VTB-deild. Hann skoraði 7,3 stig og tók 2,9 fráköst að meðaltali í leik í 13 leikjum í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.
KR-ingar hafa horft á eftir Jóni Arnóri Stefánssyni og Kristófer Acox til Vals í sumar. Þá fór Michael Craion til Frakklands og Dino Cinac til Rúmeníu. Eins og fram kom fyrr í dag telur Kristófer sig eiga milljónir króna inni hjá KR vegna vangoldinna launa.