Fjórum leikjum er nýlokið í Lengjudeild karla í fótbolta og þó haustveður hafi sett svip sinn á nokkra af leikjum dagsins var fullt af mörkum skoruð.
Á Akureyri vann Fram sterkan sigur á Þórsurum 0-2 þar sem Alexander Már Þorláksson og Fred sáu um markaskorun. Á sama tíma vann Leiknir R. öruggan heimasigur á Aftureldingu, 3-0, en Reykjavíkurliðin Leiknir og Fram eru bæði með 36 stig í 2. og 3.sæti deildarinnar.
Sex stigum á eftir þeim er ÍBV sem vann einnig í dag því Eyjamenn gerðu góða ferð í Laugardalinn og unnu 0-3 sigur.
Á Reyðarfirði vann Víkingur Ólafsvík 2-4 sigur á Leikni F. í fallbaráttuslag en Ólafsvíkingar eru nú nánast öruggir með sæti sitt í deildinni eftir þennan sigur. Alls fóru fjögur rauð spjöld á loft í leiknum.