Íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar þegar liðið heimsótti Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Zian Flemming kom Fortuna Sittard yfir snemma leiks en Dani de Wit jafnaði metin fljótt fyrir AZ eftir undirbúning Alberts. Staðan í leikhléi 1-1.
Teun Koopmeiners kom AZ í forystu snemma í síðari hálfleik og hinn bráðefnilegi Myron Boadu kom AZ Alkmaar í 1-3 á 69.mínútu en skömmu áður hafði Alberti verið skipt af velli.
Félagar Alberts náðu ekki að halda út því heimamenn skoruðu tvö mörk á lokamínútum leiksins. Lokatölur 3-3 og hefur AZ því tvö stig eftir fyrstu tvær umferðir mótsins.
Á sama tíma var Willum Þór Willumsson í byrjunarliði BATE Borisov sem tapaði 2-4 fyrir Dinamo Brest í Hvíta-Rússlandi.