Íslenski boltinn

Blikakonur með sextán mörk eftir hornspyrnur í deildinni í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Blikaliðinu eru stórhættulegar í föstum leikatriðum.
Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Blikaliðinu eru stórhættulegar í föstum leikatriðum. Vísir/Elín Björg

Breiðabliksliðið hefur örugglega verið hættulegasta fótboltalið landsins þegar kemur að nýta sér hornspyrnur og föst leikatriði. Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir býst við því að það gæti hjálpað liðinu mikið í úrslitaleiknum á móti Val á morgun.

Breiðablik sækir Val heim á Hlíðarenda á morgun í óopinberum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi Max deild kvenna. Þetta eru tvö langefstu liðin og það er nokkuð ljóst að sigur í þessum leik færir sigurliðinu algjörlega lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistarabikarinn.

Leikur Vals og Breiðabliks hefst klukkan 17.00 á Origo vellinum á Hlíðarenda og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Margrét Lára Viðarsdóttir segir að föst leikatriði gætu ráðið úrslitum í leiknum og þar standa Blikar Valsliðinu mun framar.

„Það sem að mér finnst Blikaliðið hafa fram yfir Valsliðið er þessi gríðarlegi styrkur í föstum leikatriðum. Ég þekki þjálfara Breiðabliks ágætlega og sérstaklega aðstoðarþjálfarann, og hann leggur mikið upp úr föstum leikatriðum. Þetta er drillað alveg nokkrum sinnum í viku. Mér finnst þær gera þetta ofboðslega vel, og þetta er eitthvað sem að maður saknar oft hjá Valsliðinu,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Pepsi Max mörkunum.

Margrét Lára vill sjá Valsliðið skora fleiri mörk úr föstum leikatriðum. „Það kannski breytist þegar Mist er komin. En þetta eru oft mörk sem að skila sér inn í svona stóra leiki, þegar varnarleikurinn er þéttur og lið gefa fá færi á sér. Ég held að þetta sé stundum munurinn á þessum liðum, hvað Blikar eru sterkir í föstum leikatriðum,“ sagði Margrét Lára.

Tölfræðin sýnir þetta líka svart á hvítu.

Breiðabliksliðið hefur alls skorað 21 mark úr föstu leikatriðum ef við teljum ekki með vítin. Það eru ellefu fleiri mörk en Valsliðið hefur skorað úr uppsettum atriðum.

Af þessu 21 marki úr föstum leikatriðum hafa Blikakonur skorað sextán mörk eftir hornspyrnur, ellefu frá hægri og fimm frá vinstri. Valsliðið er með níu mörk eftir hornspyrnur.


Tengdar fréttir

Breytt lið og annar stórsigur ekki í spilunum

„Liðin eru bæði á mikið betri stað en þau voru í fyrri leiknum,“ segir Mist Rúnarsdóttir um Breiðablik og Val sem mætast í hálfgerðum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×