Hiti á landinu verður á bilinu 1 til 8 stig og er spáð rigningu eða súld víða á landinu í kvöld. Bjart með köflum á Norðausturlandi en annars staðar skýjað og lítils háttar væta annars staðar á landinu að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Á höfuðborgarsvæðinu verður hæg vestlæg átt en úrkomulítið og hiti á bilinu 4 til 7 stig. Það gengur í suðvestan og vestan 5 til 10 metrar á sekúndu með rigningu eða súld í kvöld en styttir upp í fyrramálið og léttir til síðdegis á morgun.
Hvassast verður norðvestantil á landinu á morgun en á norðan- og austanverðu landinu er spáð rigningu eða slyddu með köflum. Á fjallvegum gæti úrkoman fallið sem snjókoma.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Vaxandi norðaustanátt, 10-18 m/s eftir hádegi, en hægari um landið A-vert fram á kvöld. Víða dálítil rigning eða slydda, en léttir til á S- og V-landi seinnipartinn. Hiti 1 til 7 stig.
Á mánudag:
Minnkandi norðaustanátt, 3-10 m/s eftir hádegi. Léttskýjað á SV- og V-landi, en dálítil él N- og A-lands, og skúrir syðst. Hiti kringum frostmark, en 1 til 6 stig yfir daginn S- og V-til.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en stöku skúrir eða él NV-til. Hiti kringum frostmark yfir daginn.
Á miðvikudag:
Suðlæg átt og bjart með köflum, en dálítil væta V-til. Hiti 1 til 6 stig, en vægt frost um landið A-vert.
Á fimmtudag og föstudag:
Ákveðin suðaustanátt og rigning S- og V-lands, en þurrt um landið NA-vert. Hlýnandi veður.