Kristianstad fylgdi á eftir sigrinum á Rosengård á dögunum með sannfærandi 4-0 útisigri á Umeå í sænsku kvennadeildinni í dag.
Það snjóaði mikið í norður Svíþjóð í gær og því þurfti að fresta leiknum en hann gat farið fram í dag.
Kristianstad var 1-0 yfir í hálfleik og skoraði síðan þrívegis á síðustu 25 mínútunum eftir að Umeå missti leikmann af velli með rautt spjald.
Elísabet Gunnarsdóttir er að gera frábæra hluti með Kristianstad liðið sem er nú tveimur stigum á eftir Rosengård og sex stigum á eftir toppliðinu frá Gautaborg.
Elísabet ætlar sér annað sætið en það myndi gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Hin bandaríska Hailie Jenae Mace skoraði tvívegis í dag en hin mörkin skoruðu þær Amanda Edgren og Jutta Rantala.
Svava Rós Guðmundsdóttir gat ekki spilað leikinn í dag vegna meiðsla og það er óvist hvort hún verði búin að ná sér fyrir landsleikinn á móti Svíum í næsta mánuði.