Það er von á svakalegri keppni um heimsmeistaratitilinn í CrossFit en keppnin hefst í dag. Katrín Tanja Davíðsdóttir er ein af þeim sem fagnar harðri og krefjandi keppni. Allir keppendur voru á Zoom-blaðamannafundi í gær.
Heimsleikarnir í CrossFit hefjast klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma sem er klukkan átta um morguninn hjá Katrínu Tönju Davíðsdóttur og hinum keppendunum í ofurúrslitum heimsleikanna.
Dave Castro, yfirmaður íþróttamála hjá CrossFit, hefur verið duglegur að lýsa því yfir að þetta verði erfiðustu heimsleikar sögunnar.
Hann hefur líka verið að reyna að hræða keppendur með því að tala upp lokagrein keppninnar sem hefur fengið nafnið Atalanta.
Lokagreinin er skírð eftir hinni fótfráu mær Atalanta úr grískri goðafræði sem var öflug veiðikona. Faðir hennar skildi hana eftir út í skógi af því hann var svo vonsvikinn með að hún væri ekki strákur. Atlanta var gríska gyðja hlaupsins.
Dave Castro lýsti því yfir í færslu á samfélagsmiðlum CrossFit heimsleikanna að lokagreinin sem er skírð eftir Atlanta verði erfiðasta grein í sögu heimsleikanna ef ekki erfiðasta grein allra tíma.
Hann birti myndina af Atalanta sem var þekkt í grískri goðafræði fyrir að bjóðast til að giftast þeim gæti hlaupið hraðar en hún og fyrir að drepa þá karlmenn sem tókst það ekki.
Á blaðamannafundi voru keppendur spurðir út í erfiðustu greinina sem þeir hafa tekið þátt í á heimsleikunum til þessa. Katrín Tanja nefndi þegar þau fóru á Microwave Mountain árið 2012 en þá fóru nokkrar greinar fram á herstöð bandaríska sjóhersins í Camp Pendleton. Katrín Tanja tók það samt fram að hún væri allt annar íþróttamaður í dag en fyrir átta árum síðan.
Katrín Tanja lét Dave Castro heldur ekki hræða sig með yfirlýsingum sínum um lokagreinina.
„Dave, ég vona að þú standir við þessi orð,“ sagði Katrín Tanja.
Hér fyrir neðan má sjá upptöku frá blaðamannafundi með Katrínu Tönju og hinum keppendunum í ofurúrslitum heimsleikanna en hann var haldinn í gegnum Zoom. Katrín Tanja og hinar stelpurnar voru í hjólhýsinu sem þær fengu til afnota á meðan heimsleikunum stendur.