Katrín Tanja Davíðsdóttir er áfram í öðru sætinu eftir áttundu greinar á ofurheimsleikunum í CrossFit sem fara fram í Bandaríkjunum í ár.
Áttunda greinin hljóðaði þannig að keppendurnir áttu hjóla 440 metra og klifra svo upp kaðal. Þetta áttu keppendurnir að endurtaka tíu sinnum.
Katrín Tanja var í öðru sætinu með 390 stig fyrir fimmtu áttundu greinina og var 40 stigum á undan Brooke Wells sem var í þriðja sætinu. Tia-Clair Toomey var í sérflokki í fyrsta sætinu með 570 stig.
Katrín byrjaði vel en fataðist svo flugið er líða fór á keppnina. Hún kom í mark á 15:36,02. Hún endaði svo í fjórða sætinu í greininni en er áfram í öðru sætinu á samanlögðum fjölda stiga.
Það kom fáum á óvart að Tia-Clair Toomey kom fyrst í mark og tryggði sér hundrað stig. Hún kom í mark á 14:37,51. Haley Adams var í öðru sætinu á 14:53,61 og Kari Pearce var í þriðja sætinu á 15:14,92 sem voru góðar fréttir fyrir Katrínu því hún átti mörg stig á þær fyrir áttundu greinina.
Katrín Tanja er áfram í öðru sætinu með 425 stig. Toomey er á toppnum með 670 stig, Haley Adams er í þriðja sætinu með 400 stig, Kari Pearce er í 4. sætinu með 380 stig og Brooke Wells er í því fimmta með 365.
Níunda og síðasta grein dagsins fer fram í kvöld og vonandi að okkar kona nái þremur efstu sætunum til þess að tryggja sér 50 eða fleiri stig fyrir morgundaginn.