Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason var á sínum stað í byrjunarliði Malmö þegar liðið fékk Gautaborg í heimsókn í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Malmö komst yfir strax á 3.mínútu með marki úr vítaspyrnu en Pontus Wernbloom jafnaði metin fyrir Gautaborg á 23.mínútu. Ola Toivonen sá til þess að Malmö færi með forystu í leikhléið eftir að hafa skorað á 35.mínútu.
Arnóri Ingva var skipt af velli eftir klukkutíma leik og skömmu síðar gulltryggði Malmö sigurinn þegar leikmaður Gautaborgar varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Malmö steig þar með enn eitt skrefið í átt að sænska meistaratitlinum en liðið er með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðum er ólokið.