Erlent

„Úr þessu húsi í Hvíta húsið, með Guðs náð“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Biden á tröppum æskuheimilisins í Scranton í dag.
Biden á tröppum æskuheimilisins í Scranton í dag. Drew Angerer/Getty

Donald Trump og Joe Biden, sem berjast um embætti Bandaríkjaforseta, eru nú á lokametrum kosningabaráttunnar. Trump kom við í höfuðstöðvum landsnefndar Repúblikana í Virginíu áður en hann hélt heim í Hvíta húsið og Biden ræddi við kjósendur í Pennsylvaníu.

Biden heimsótti fyrst heimabæ sinn Scranton í Pennsylvaníuríki, einu mikilvægasta ríki þessara kosninga, í dag og ávarpaði þar hóp fólks sem var samankominn fyrir utan æskuheimili hans. Biden hét því í ávarpi sínu til fólksins að hann myndi „koma velsæmi aftur við lýði í Hvíta húsinu“, ynni hann kosningarnar.

Þá ritaði Biden nafn sitt á vegg í stofu æskuheimilisins, auk eftirfarandi áletrunar: „Úr þessu húsi í Hvíta húsið, með Guðs náð.“

Biden ræddi einnig við stuðningsmenn og blaðamenn í Fíladelfíu áður en hann lagði af stað til Wilmington í Delaware, hvert Biden fluttist með fjölskyldu sinni frá Scranton á sjötta áratugnum. Wilmington verður lokaáfangastaður Bidens í kosningabaráttunni en þaðan mun hann ávarpa bandarísku þjóðina á einhverjum tímapunkti í nótt.

Trump heimsótti skrifstofu RNC, landsnefndar Repúblikanaflokksins, í Arlington í Virginíu í dag. Þar kvaðst hann ekki hafa leitt hugann að ræðuhöldum í nótt, hvorki sigur- né tapræðu.

„Vonandi gerum við aðeins eitt af þessu tvennu og, þið vitið, að vinna er auðvelt. Að tapa er aldrei auðvelt, ekki fyrir mig,“ sagði forsetinn.

Þaðan hélt Trump aftur í Hvíta húsið, þar sem haldin verður kosningavaka í svokölluðu Austurherbergi (e. East room). Samkvæmt heimildum NBC-fréttastofunnar hefur um 3-400 gestum verið boðið í samkvæmið. Þeim verði öllum gert að fara í sýnatöku fyrir kórónuveirunni til að fá inngöngu.

Fylgjast má með helstu vendingum og úrslitum bandarísku forsetakosninganna í alla nótt í vaktinni hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×