Bandaríski sendiherrann á Íslandi hyggst ekki tjá sig um niðurstöðu bandarísku forsetakosninganna. Fréttastofa óskaði eftir viðbrögðum sendiherrans við niðurstöðum kosninganna.
„Þar til yfirstandandi deilur um kosningarnar eru leystar er ekki viðeigandi að við tjáum okkur frekar um þær,“ segir Patrick Geraghty, talsmaður Bandaríska sendiráðsins hér á landi í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.
Hann segir aðaláherslu sendiráðsins að tryggja heilindi framvindu kosninganna þannig að þegar öll atkvæði hafa verið talin hafi þjóðin með sanngirni, friðsamlega og lýðræðislega kjörið fulltrúa sína.
Fréttastofa sendi fyrirspurn til sendiráðsins í gær og bað um viðtal við Jeffrey Ross Gunter sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í ljósi niðurstöðu nýafstaðinna kosninga. Sendiherrann baðst undan því.
Í svari Geraghty segir að eftir að öllu kosningaferlinu er lokið muni sendiráðið halda áfram að vinna að farsælu og góðu sambandi Bandaríkjanna og Íslands.
Gunter var tilnefndur í embætti sendiherra af Donald Trump árið 2018. Bandaríkjaþing staðfesti tilnefninguna í maí 2019. Gunter er mikill stuðningsmaður forsetans en sjálfur var hann einn leiðtoga samtaka gyðinga í Repúblikanaflokknum. Gunter hefur verið duglegur að koma sér í sviðsljósið síðan hann tók við embætti sendiherra hér á landi.
Síðast þann 31. október sakaði hann Fréttablaðið um falsfréttaflutning eftir frétt þeirra um kórónuveirusmit í sendiráðinu. Í sumar var hann harðlega gagnrýndur eftir að hann tísti um „ósýnilegu Kínaveiruna.“ Íslendingar svöruðu honum á Twitter og sögðu hann meðal annars fábjána og rasista. Bandaríkjamenn á Íslandi söfnuðu í kjölfarið undirskriftum og hvöttu íslensk stjórnvöld til þess að vísa honum úr landi.