Erlent

67 látin eftir öflugan felli­byl á Filipps­eyjum

Sylvía Hall skrifar
Mikil flóð urðu eftir fellibylinn.
Mikil flóð urðu eftir fellibylinn. AP/Ace Morandante

Tala látinna á Filippseyjum er nú 67 eftir að fellibylurinn Vamco gekk yfir eyjarnar. Fellibylurinn er sá þriðji sem gengur yfir á þremur vikum og hafa hátt í 26 þúsund hús orðið fyrir skemmdum vegna þessa.

Öflugasti fellibylurinn, Goni, gekk yfir í byrjun mánaðar og gerði Vamco aðeins illt ástand verra. Svæði landsins eru mörg hver nánast á kafi eftir mikil flóð og flaug forsetinn Rodrigo Duterte til Tuguegarao héraðsins til þess að meta stöðuna í Cagayan Valley svæðinu þar sem mikil flóð urðu eftir Vamco.

Frá Marikina í Filippseyjum eftir að Vamco gekk yfir.AP/Aaron Favila

22 létust í Cagayan, sautján á suðurhluta eyjunnar Luzon, átta í og við höfuðborgina Manila og tuttugu á tveimur öðrum svæðum að því er fram kemur á vef Reuters. Vindhraði Vamco mældist tæplega 42 metrar á sekúndu.

Ríkisstjóri Cagayan, Manuel Mamba, sagði flóðin vera þau verstu sem hafa verið á svæðinu í 45 ár. Á fundi sínum með Duterte sagði hann stöðuna versna með ári hverju.

Vamco er 21. fellibylurinn sem gengur yfir Filippseyjar á þessu ári og hefur orsakað verstu flóð á höfuðborgarsvæði landsins í mörg ár. Afleiðingar hans hafa haft áhrif á þúsundir íbúa, sem hafa margir hverjir þurft að flýja heimili sín.


Tengdar fréttir

Minnst sjö látin á Filippseyjum

Minnst sjö eru látin og fleiri slösuð eftir fellibylinn Goni sem gengur yfir Filippseyjar. Meðal hinna látnu er fimm ára barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×