Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í fótbolta og leikmaður Rosengård, er sögð vera besti miðvörður sænsku úrvalsdeildarinnar sem lauk í gær.
Twitter-síðan Damallsv Nyheter valdi í gær 50 bestu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar. Þar er Glódís í 7. sæti en í umsögn um hana er hún sögð besti miðvörður deildarinnar, raunar sá langbesti.
„Er langbesti miðvörður deildarinnar, er alltaf á réttum stað og hleypir aldrei neinum framhjá sér,“ segir í umsögn Damallsv Nyheter. „Ósérhlífin í skallaboltunum og sýnir hver ræður ríkjum. Svalur leikmaður.“
7. Glodis Perla Viggosdottir
— Damallsv Nyheter (@damallsvfotboll) November 15, 2020
FC Rosengård
Är i särklass seriens bästa mittback, står alltid rätt i position och släpar sällan någon förbi sig. Hänsynslös mot sig själv i huvudspelet och trycker gärna till motståndare lite extra för att visa vem som bestämmer. Häftig spelartyp pic.twitter.com/sROobgV7hc
Rosengård endaði í 2. sæti deildarinnar og tókst því ekki að verja sænska meistaratitilinn sem liðið vann í fyrra.
Glódís lék hverju einustu mínútu í öllum 22 deildarleikjum Rosengård á tímabilinu eins og hún hefur gert undanfarin þrjú ár. Þá skoraði hún tvö mörk.
Glódís kom til Rosengård frá Eskilstuna United um mitt tímabil 2017. Hún hefur leikið í Svíþjóð frá 2015 og á þeim tíma aðeins misst af tveimur af 132 deildarleikjum.
Að mati Damallsv Nyheter er Therese Åsland, sem leikur undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur hjá Kristianstad, besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar.