Reykjavíkurborg hefur samþykkt að ganga til viðræðna við KR um byggingu fjölnota knatthúss á íþróttasvæði KR í vesturbæ Reykjavíkur. Tilkynning þess efnis var send út á heimasíðu félagsins í kvöld.
Þar segir að KR hafi undanfarin ár átt í viðræðum og samstarfi við Reykjavíkurborg um uppbyggingu íþróttamannvirkja á KR svæðinu með það að markmiði að bæta aðstöðu félagsins til íþrótta- og félagsstarfs og nú sjái fyrir endann á fyrsta hluta þeirrar vinnu.
Á þessu ári hafi verið ráðist í vinnu við að skilgreina og forgangsraða uppbyggingu íþróttamannvirkja á höfuðborgarsvæðinu og fjölnota knatthús á KR svæðinu hafi raðast hátt í þeirri þarfagreiningu.
Tvö knatthús eru í Reykjavíkurborg en það er annars vegar Egilshöll í Grafarvogi og hins vegar nýtt hús á félagssvæði ÍR í Mjóddinni.