Fótbolti

Stuðningsmenn Bodø/Glimt mæta með risastóra gula tannbursta á leiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hressir stuðningsmenn Bodø/Glimt smella kossi á risavaxna gula tannburstann sem er eins konar tákn liðsins.
Hressir stuðningsmenn Bodø/Glimt smella kossi á risavaxna gula tannburstann sem er eins konar tákn liðsins. copa90

Á leikjum nýkrýndra Noregsmeistara Bodø/Glimt tíðkast að stuðningsmenn liðsins mæti með risavaxna gula tannbursta á leiki þess.

Alfons Sampsted leikur með Bodø/Glimt en viðurkennir að hann viti ekki mikið um tannburstana og söguna í kringum þá.

„Ég er búinn að vera að pæla í þessu sjálfur. Ég hef ekki hugmynd,“ sagði Alfons hlæjandi í samtali við Vísi.

„Ég er búinn að spyrja nokkra en held ég sé búinn að spyrja vitlausu mennina. Þeir vita ekkert heldur. Ég þarf að spyrja einhvern sem er annað hvort uppalinn hérna eða hefur verið lengi hjá félaginu. Þeir eru að selja gula tannbursta hægri vinstri. Þegar við keyrðum í rútunni í gegnum bæinn var fullt af fólki sitt hvorum megin við götuna með tannbursta á lofti.“

Samkvæmt frétt NRK hófst þessi tannburstahefð á heimaleik Bodø/Glimt um miðjan 8. áratug síðustu aldar. Stuðningsmaður liðsins, Arnulf Bendixen, reyndi þá að fá aðra stuðningsmenn til að syngja með sér en var ekki nógu sáttur með útkomuna.

Vinur hans rétti Bendixen þá tannbursta sem hann var með í vasanum og hann notaði tannburstann til að stýra hópsöng eins og hljómsveitarstjóri notar tónsprota.

Fulltrúi tannburstafyrirtækisins Jordan var á leiknum og sá sér leik á borði. Jordan bjó til nokkra risastóra gula tannbursta sem hafa verið hluti af ásýnd Bodø/Glimt, tákn stuðningsmanna liðsins, síðan þá.

Fyrir um áratug bjó Jordan svo til sérstaka Bodø/Glimt tannbursta sem voru öllu handhægari en risaburstarnir. Bodø/Glimt tannburstarnir voru framleiddir í takmörkuðu upplagi. 

Klippa: Alfons um tannburstahefð Bodø/Glimt

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×