Gary Martin ætlaði að fara í afslöppun og æfingaferð til Tenerife, en sú ferð átti heldur betur eftir að breytast í martröð. Gary ferðaðist með Troy Williamsson vini sínum, sem greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni.
Troy segir þá félaga hafa ætlað að fara til Tene og æfa sig, þar sem ódýrt flug og gisting voru í boði. Nokkrum dögum seinna hafi þeir þurft að breyta um flug, sem hafi kostað skildinginn og þá voru þeir skikkaðir í skimun fyrir kórónuveirunni við komuna til eyjunnar.
Troy segist hafa greinst neikvæður í skimuninni en Gary Martin greinst jákvæður fyrir veirunni. Fyrir vikið eru þeir félagar fastir í einangrun í íbúðinni sem þeir leigðu næstu tíu daga. Þar eru þeir lokaðir af, öryggisborði er fyrir hurðinni að íbúðinni og öryggisvörður röltir fram hjá á tveggja tíma fresti.
Troy segir að þeir félagar neyðist til þess að bóka fleiri nætur í íbúðinni og breyta fluginu heim til sín, og það kosti þá fúlgur fjár.