Martin Hermannsson og félagar í Valencia fá risastórt próf í kvöld þegar þeir heimsækja Barcelona en Valencia liðið þarf nauðsynlega að fara að laga stöðu sína í spænsku deildinni.
Martin Hermannsson hefur ekki mikinn tíma fyrir jólabúninginn því hann og félagar hans í Valencia munu spila tólf leiki í jólamánuðinum.
Sá fyrsti af þessum tólf leikjum verður þessi risaleikur á móti stórliði Barca í kvöld og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 20.05.
Valencia hefur unnið sjö af tíu leikjum sínum í Eurolegue en gengið hefur ekki verið eins gott í spænsku deildinni þar sem liðið er aðeins í tólfta sæti með sex töp og aðeins fjóra sigra.
Barcelona og Valenica hafa mæst áður á tímabilinu en eitt af þremur töpum Valencia liðsins í Euroleague í vetur var einmitt á móti Barcelona um miðjan október.
Barcelona vann leikinn 71-66 og Martin náði sér ekki á strik. Íslenski landsliðsbakvörðurinn var með 1 stig og 2 stoðsendingar á rúmum fjórtán mínútum.
Barcelona er með rosalega gott varnarlið sem sést meðal annars á því að liðið hefur fenguð á sig undir 70 stig að meðaltali í Euroleague og bara 72,7 stig á sig í leik í spænsku deildinni.
Valencia auglýsti leik kvöldsins að sjálfsgöðu með mynd af okkar manni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.