Fótbolti

Íslensk uppskrift að marki Vålerenga

Anton Ingi Leifsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson í leik með Vålerenga.
Viðar Örn Kjartansson í leik með Vålerenga. VFF.no

Margir Íslendingar voru í eldlínunni í norsku knattspyrnunni í dag.

Það var íslensk uppskrift að marki Vålerenga í dag er liðið gerði 1-1 jafntefli við Stabæk á útivelli í norska boltanum.

Matthías Vilhjálmsson lagði upp markið fyrir Viðar Örn Kjartansson á níundu mínútu. Enn eitt markið sem Viðar skorar á leiktíðinni en heimamenn í Stabæk jöfnuðu í síðari hálfleik.

Matthías Vilhjálmsson spilaði fyrstu 67 mínúturnar en Viðar Örn Kjartansson spilaði allan leikinn. Vålerenga er í 3. sætinu með 48 stig.

Emil Pálsson spilaði allan leikinn og Viðar Ari Jónsson í 89 mínútur er Sandefjord vann 1-0 sigur á Álasundi. Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn fyrir Álasund sem er fallið en Sandefjord er í 11. sætinu.

Jóhannes Harðarson og lærisveinar í Start gerðu 1-1 jafntefli við norsku meistarana í Bodo/Glimt. Alfons Sampsted spilaði í klukkutíma fyrir meistarana en Start er nú tveimur stigum frá umspilssæti um fall.

Axel Óskar Andrésson spilaði allan leikinn fyrir Viking sem vann 2-0 sigur á Brann. Samúel Kári Friðjónsson var ónotaður varamaður en Viking er í 7. sætinu með 42 stig.

Tryggvi Hrafn Haraldsson var skipt af velli fyrir Björn Bergmann Sigurðarson á 78. mínútu er Lilleström vann 2-0 sigur á KFUM í norsku B-deidinni. LIlleström er með 55 stig í 2. sætinu og fimm stiga forystu á Sogndal er tvær umferðir eru eftir. Tvö efstu liðin fara beint upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×