TASS fréttaveitan, sem er í eigu ríkisins, sagði frá því í gær að mál Gubanov væri leynilegt og því væru upplýsingar um hvaða gögn eðlisfræðingurinn er sakaður um að hafa afhent og til hvaða ríkis, væru ríkisleyndarmál.
Réttarhöldin sjálf verða líklegast leynileg en verði Gubanov fundinn sekur gæti hann verið dæmdur til allt að tuttugu ára fangelsisvistar.
Rússar hafa á undanförnum árum lagt mikið kapp í að þróa hljóðfráar eldfalugar og flugvélar. Þegar tilraun með eina slíka eldflaug heppnaðist í október sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, að slík vopn myndu tryggja varnargetu herafla Rússlands til margra ára.
Þá var eldflaug af gerðinni Tsirkon skotið af skipi og að eyju í um 450 kílómetra fjarlægð. Þegar mest var, náði eldflaugin áttföldum hljóðhraða, sem samsvarar tæplega tíu þúsund kílómetrum á klukkustund.
Hljóðfráar eldflaugar sem þessar gera hefðbundnar eldflaugavarnir nánast úreltar því þær geta breytt snögglega af stefnu og komið sér undan öðrum eldflaugum. Rússar, Bandaríkin og Kína vinna hörðum höndum að þróun þessara vopna.
Reuters segir málaferli eins og þau sem beinast nú gegn Gubanov vera tiltölulega algeng í Rússlandi. Í síðasta mánuði hafi maður verið dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að reyna að leka hernaðarleyndarmálum til Bandaríkjanna. Þá hafi hermaður og bróðir hans verið handteknir í október fyrir að leka ríkisleyndarmálum til Eistlands.