Sport

Anníe Mist: Svaraði strax já en þurfti síðan að breyta því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir með dóttur sína Freyju Mist sem breytti mjög miklu fyrir íslensku CrossFit goðsögnina á árinu 2020.
Anníe Mist Þórisdóttir með dóttur sína Freyju Mist sem breytti mjög miklu fyrir íslensku CrossFit goðsögnina á árinu 2020. Instagram/@anniethorisdottir

Lífið getur breyst á augabragði og komið með nýja og öðruvísi áskorun fyrir íþróttafólk. Gott dæmi um það er síðasta CrossFit tímabil hjá Anníe Mist Þórisdóttur.

Anníe Mist var í toppformi fyrir ári síðan, nýbúin að tryggja sér annað sæti í The Open og fram undan voru átta undirbúningsmánuðir fyrir komandi heimsleika í CrossFit. Lífið leiddi hana hins vegar snögglega af þeirri leið.

Anníe Mist Þórisdóttir rifjaði það upp á Instagram siðu sinni að fyrir einu ári síðan, í desember 2019, þá var opna hluta heimsleikanna lokið og Anníe hafði tryggt sér sæti á heimsleikunum 2020 með því að enda í öðru sæti á eftir Söru Sigmundsdóttur.

Það fór samt aldrei svo að Anníe Mist tæki þátt í heimsleikunum því fljótlega á nýju ári kom í ljós að hún væri ófrísk og það væri von á dóttur á sama tíma og heimsleikarnir áttu að fara fram.

Anníe Mist gaf eftir sætið sitt og Freyja Mist kom síðan í heiminn 10. ágúst síðastliðinn.

„Klikkað að hugsa til þess að á þessum tíma fyrir ári síðan þá var The Open búið og við vorum farin að fá boð á heimsleikana 2020. Ég svaraði strax já eftir að hafa náð öðrum besta árangrinum. Ég var þvílíkt tilbúin,“ skrifaði Anníe Mist.

„Nokkrum mánuðum síðar þá gaf ég eftir sætið mitt. Ég hafði þá fengið allt aðra áskorun,“ skrifaði Anníe Mist.

Barnið kom í heiminn fyrir rétt tæpum fjórum mánuðum síðan en Anníe Mist hefur fyrir nokkru hafið æfingar af fullum krafti. Hún hefur skrifaði um mikilvægi þess að vera þolinmóð því þetta taki allt meiri tíma en hún bjóst við.

Anníe Mist nýtur því góðs af því að The Open er nú komið aftur á sinn vanalega tíma í febrúar og því fær hún tvo mánuði til viðbótar til að vinna sig til baka eftir barnsburðinn.

„Ég get ekki sagt annað en að ég sé ánægð með að The Open sé komið aftur í febrúar,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×