Erlent

Covid-19 gæti minnkað lífslíkur Bandaríkjamanna um þrjú ár

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt John Hopkins University hafa nú fleiri en 18 milljónir Bandaríkjamanna greinst með Covid-19.
Samkvæmt John Hopkins University hafa nú fleiri en 18 milljónir Bandaríkjamanna greinst með Covid-19. epa/Cristobal Herrera

Ef Covid-19 er tekið með í reikninginn munu lífslíkur Bandaríkjamanna minnka um þrjú ár. Sjúkdómurinn, sem er afleiðing SARS-CoV-19 veirusmits, verður að öllum líkindum í þriðja sæti yfir helstu dánarorsakirnar vestanhafs árið 2020.

Árið 2019 var meðalævilengd Bandaríkjamanna 78,8 ár, samkvæmt bandarísku farsóttastofnuninni (CDC). Um var að ræða 0,1 árs hækkun frá fyrra ári, sem mátti rekja til færri dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma og krabbameina.

Dauðsföllum af völdum ofskömmtunnar fjölgaði frá 2018 en sjálfsvígum fækkaði í fyrsta sinn í 14 ár.

Samkvæmt John Hopkins University hafa nú fleiri en 18 milljónir Bandaríkjamanna greinst með Covid-19. Þá hafa 319.466 dáið af völdum sjúkdómsins, samkvæmt tölum frá því í morgun.

Til samanburðar létust 659 þúsund manns af völdum hjartasjúkdóma og um 600 þúsund af völdum krabbameina árið 2019. Þar á eftir komu dauðsföll af völdum umferðarslysa en 173 þúsund létust í bílslysum í fyrra.

Guardian vitnar í Wall Street Journal, sem hefur eftir sérfræðing hjá CDC að hann hafi reiknað út í ágúst að lífslíkur Bandaríkjamanna hefðu minnkað um eitt og hálft ár. Hann sagði ekki útilokað að í árslok hefðu þær minnkað um tvö til þrjú ár til viðbótar.

Robert Anderson sagði um að ræða mesta fall í lífslíkum frá 1943, þegar seinni heimstyrjöldin varð til þess að þær drógust saman um 2,9 ár. Tuttugu og fimm árum áður varð Spænska veikin til þess að þær drógust saman um 11,8 ár, ekki síst vegna fjölda dauðsfalla meðal barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×