Líkt og Vísir greindi frá í morgun varð mikil sprenging í borginni Nashville í Tennessee-ríki þegar húsbíll sprakk fyrir utan byggingu í eigu fjarskiptafyrirtækisins AT&T. Minnst þrír slösuðust í sprengingunni og þá hefur fundist það sem talið er geta verið líkamsleifar nærri vettvangi.
Viðskptamaðurinn Marcus Lemonis er einn þeirra sem hefur heitið verðlaunafé fyrir hvern þann sem getur bent á sökudólginn. „Ég vil gjarnan leggja fram 250 þúsund dollara í verðlaun til handa þeim sem getur gefið upplýsingar sem leitt geta til handtöku og dóms í málinu,“ skrifar Lemonis meðal annars í fræslu á Twitter þar sem hann birtir einnig myndir frá vettvangi.
. @MNPDNashville @JohnCooper4Nash I would like to put up a $250,000 reward to anyone who provides information that leads to the arrest and conviction inside of your process, of the this Nashville incident. We can t have our streets terrorized like this. #horror pic.twitter.com/k9fNjRjklZ
— Marcus Lemonis (@marcuslemonis) December 25, 2020
Lögregla hafði upphaflega verið kölluð til vegna skothvella sem heyrðust á svæðinu skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma í gærmorgun. Þegar komið var á vettvang heyrðust varnaðarorð frá bílnum sem sprakk nokkrum mínútum síðar. Lögregla telur ólíklegt að um slys hafi verið að ræða og gengur út frá því að sprengingin hafi verið viljaverk.
Boð um verðlaunafé tókust að berast í gær eftir að ferðaþjónustufyrirtækið Nashville Convention & Visitors Corp reið á vaðið og bauð fyrst 10 þúsund dollara í verðlaunafé, en hækkaði svo upphæðina í 35 þúsund dollara. Fleiri fyrirtæki fylgdu fordæminu í kjölfarið og buðu verðlaunafé.