Rannsókn lögreglu hefur samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs beinst að Anthony Warner, 63 ára manni sem vitað er að átti sambærilegan húsbíl og þann sem sprakk í loft upp. Talið er að hann hafi komið fyrir sprengiefni í bílnum og ekið honum á vettvang sprengingarinnar, þar sem hann varaði fólk við því að koma sér í burtu.
Uppfært: 22:25 - Yfirvöld hafa staðfest að Warner átti bílinn sem sprakk og að hann hafi verið í honum.
Á meðan viðvaranir ómuðu í hátalarkerfi bílsins hlupu lögregluþjónar á milli húsa og sögðu fólki að flýja. Eftir nokkurn tíma hættu viðvaranirnar og eftir smá þögn heyrðist lagið Downtown eftir Petula Clark. Skömmu seinna sprakk húsbíllinn í loft upp.
Öryggismyndavélar höfðu áður tekið upp hljóð þar sem einhver virtist skjóta um tuttugu skotum á svæðinu. Samkvæmt samantekt Washington Post var það áður en viðvaranirnar heyrðust.
Í frétt Guardian er vísað í héraðsmiðla frá Bandaríkjunum þar sem rætt var við Steve Fridrich. Hann starfaði með Warner og sagði í viðtali að rannsakendur Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) hefðu spurt hann hvort Warner hefðu verið tortrygginn gagnvart 5G tækni.
Fregnir hafa borist af því að rannsakendum hafi borist ábendingar um að Warner hafi kokgleypt samsæriskenningar um að til stæði að nota 5G senda til að njósna um fólk og annað sem við kemur tækninni.
Alls konar samsæriskenningar varðandi 5G hafa litið dagsins ljós að undanförnu og tóku þær mikinn kipp samhliða faraldri nýju kórónuveirunnar. Á þessu ári hefur verið kveikt í fjarskiptamöstrum víða og jafnvel ráðist á starfsmenn fjarskiptafyrirtækja.
Sjá einnig: Vilja taka 5G-samsæriskenningar fastari tökum
John Cooper, borgarstjóri Nashville, sagði í viðtali í dag að útlit væri fyrir að árásin tengdist innviðum og gaf hann því áðurnefndum fregnum um ástæður árásarinnar byr undir báða vængi.
Douglas Korneski, sem stýrir rannsókninni á sprengjuárásinni, segir þó að of snemmt sé að segja til um ástæður þess að húsbíllinn hafi verið sprengdur í loft upp. Hundruð rannsakenda vinni að því að skoða fjölmargar ábendingar og engin ein kenning sé öðrum ofar að svo stöddu.