RÚV greinir frá stefnu þess efnis sem birtist í Lögbirtingablaðinu í gær. Þar kemur fram að sóknin þyrfi að höfða eignardómsmál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra, svo afhenda megi Lilju kirkjuna.

Kirkjan er staðsett á Hofi, jörð Lilju á Höfðaströnd.Upphaflega stóð til að afhenda Lilju kirkjuna til eignar í apríl. Enginn þinglýstur eigandi reyndist hins vegar vera að kirkjunni. Því var ekki hægt að þinglýsa afsali.
Í stefnunni kemur fram að kirkjan, sem byggð var árið 1871, hafi verið afhent Hofssókn árið 1915 og að sóknin hafi allar götur síðan ráðstafað kirkjunni eins og hún væri eign sóknarinnar, séð um hana, sinnt viðhaldi og greitt skatta og skyldur.
Samningur um að kirkjan sé eign sóknarinnar hafi hins vegar glatast, og því sé nauðsynlegt að höfða eignardómsmál til þess að sóknin öðlist heimild til að ráðstafa kirkjunni.
Þannig er skorað á alla á þá sem telja sig vera eigendur kirkjunnar eða eiga rétt til hennar að mæta á dómþing í héraðsdómi í febrúar á næsta ári, ella megi búast við því að eignardómsdómur gangi í málinu í samræmi við kröfur sóknarinnar.