Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þegar Þorleifur Hauksson, 63 ára íbúi hjúkrunarheimilisins Seljahlíðar í Breiðholti, hlaut þann heiður að verða fyrstur almennra borgara að fá sprautuna klukkan tíu í morgun að viðstöddum heilbrigðisráðherra og forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðis.
Margrét Árdís Ósvaldsdóttir, forstöðumaður Seljahlíðar, sagði þetta stóra stund og þetta væri mikil gjöf. Þorleifur hefði sjálfur sagt að þetta væri líklega stærsta jólagjöfin.
„Ertu spenntur?“ spurði hún.
„Mjög svo,“ svaraði Þorleifur.

Brigitte Einarsson, reyndasti hjúkrunarfræðingur Seljahlíðar, annaðist bólusetninguna og klöppuðu viðstaddir þegar búið var að sprauta Þorleif.
„Nú förum við að sjá í ljósið við enda ganganna, vonandi. En það er búið að færa miklar fórnir, eins og þið vitið, á hjúkrunarheimilum síðustu tíu mánuði.
Það hafa verið heimsóknartakmarkanir miklar. Íbúar farið lítið. Starfsfólkið nánast haldið sig í sóttkví til að geta sinnt störfum sínum,“ sagði Margrét.
-Þorleifur, var þetta nokkuð vont?
„Nei. Þetta var bara eins og að láta sprauta sig við flensu.“
Eftir að Þorleifur var búinn að fá sprautuna hélt hann úr matsalnum til íbúðar sinnar. Frammi á gangi biðu nítján aðrir hjúkrunaríbúar á Seljahlíð þess að verða næstir í röðinni til að fá bólusetningu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá útsendingu Vísis frá athöfninni í morgun: