Enn er nokkuð óljóst um atburði næturinnar en á vef norska ríkisútvarpsins segir að ljóst sé að margir hafi slasast, enda hafi skriðan eyðilagt nokkur hús. Lögregla var kölluð út um klukkan fjögur að staðartíma í nótt.
Neyðarstigi hefur verið lýst yfir á svæðinu og allt tiltækt björgunarlið kallað til. Kjetil Ringseth stýrir aðgerðum lögreglu segir að skriðan hafi hrifsað með sér nokkur heimili bæjarbúa þó að óljóst sé um fjölda þeirra að svo stöddu.
Det har gått et større skred like ved sentrum av Ask i Gjerdrum. Minst et hus er tatt av skredet og flere skal være skadet.
Posted by NRK Nyheter on Tuesday, 29 December 2020
Talsmaður Háskólasjúkrahússins í Osló segir að margir eiga að hafa slasast í hamförunum, en fyrsti sjúklingurinn var kominn á sjúkrahúsið um klukkan 6:30 að staðartíma. Sjúkrahúsið hefur verið sett á „rautt viðbúnaðarstig“. VG segir frá því að fimm manns hið minnsta hafi verið sendir á sjúkrahús enn sem komið er.
Ask er að finna um þrjátíu kílómetrum norðaustur af höfuðborginni Osló og eru íbúar um fimm þúsund talsins.
Viðbúnaður er mikill á staðnum, en ekki hefur verið hægt að halda inn á hluta skriðusvæðisins vegna hættu á frekari skriðum.