Lögregla tekur fram að fólkið kann að hafa verið í heimsókn hjá öðru fólki þegar skriðurnar féllu eða tekist að komast burt af sjálfsdáðum. Þó sé einnig möguleiki að fólkið sé að finna á því svæði þar sem aurskriðurnar féllu.
Lögregla í Noregi greindi frá þessu um klukkan ellefu í morgun, en var fyrst kölluð út vegna skriðanna um klukkan fjögur í nótt að staðartíma. Voru þá milli 150 og tvö hundruð manns gert að yfirgefa heimili sín á svæðinu og voru sjúkrahús í Osló sett á neyðarstig.
Þegar leið á morguninn var rýmingarsvæðið stækkað þannig að um sjö hundruð manns hafa nú þurft að yfirgefa heimili sín og er enn er talin hætta á frekari skriðuföllum.
Vitað er að níu manns hið minnsta hafi slasast og þar af einn alvarlega.
Enn er verið að meta umfang eyðileggingarinnar en að sögn lögreglu náði skriðan yfir hús við fjórtán mismunandi heimilisföng. Er skriðusvæðið sagt vera sjö hundruð metrar sinnum þrjú hundruð metrar að stærð.

Af myndum að dæma má ljóst vera að eyðileggingin er mikil og hefur sveitarstjórinn, Anders Østensen, sagt náttúruhamfarirnar vera bæði miklar og alvarlegar.
Viðbúnaður á svæðinu hefur verið mikill í nótt og í morgun, þar sem lögregla, slökkvilið, heimavarnarlið og fulltrúar almannavarna hafa meðal annars tekið þátt.

Bærinn Ask er að finna í sveitarfélaginu Gjerdrum, um þrjátíu kílómetra norðaustur af höfuðborginni Osló og telja íbúar bæjarins um fimm þúsund.
Skriður sem þessar eru tiltölulega algengar á þessu svæði þar sem jarðvegurinn er víða mjög leirkenndur.
Fréttin hefur verið uppfærð.