Erlent

Mann­fall eftir sprengju­á­rás á flug­velli í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengingar heyrðust og skotið var úr byssum á flugvellinum skömmu eftir að flugvél með nýrri ríkisstjórn landsins lenti á flugvellinum eftir að hafa komið frá Sádi-Arabíu.
Sprengingar heyrðust og skotið var úr byssum á flugvellinum skömmu eftir að flugvél með nýrri ríkisstjórn landsins lenti á flugvellinum eftir að hafa komið frá Sádi-Arabíu. AP

Fimm manns hið minnsta eru látnir og fjöldi særður eftir sprengjuárás á flugvelli í jemensku hafnarborginni Aden í morgun. Sprengingar heyrðust og skotið var úr byssum á flugvellinum skömmu eftir að flugvél með nýrri ríkisstjórn landsins lenti á flugvellinum eftir að hafa komið frá Sádi-Arabíu.

Forsætisráðherrann Maeen Abdulmalik Saeed og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn eru sagðir hafa sloppið ómeiddir frá árásinni og verið fluttir í forsetahöll landsins.

Upplýsingamálaráðherra landsins segir „hryðjuverkamenn úr röðum Húta“ bera ábyrgð á árásinni.

Ríkisstjórn Saeeds var mynduð í tilraun til að sætta fylkingar sveita sem eru hliðhollar forsetans Abdrabbuh Mansour Hadi og svo aðskilnaðarsinna í suðurhluta landsins. Standa vonir til fylkingarnar geti unnið saman í baráttunni gegn hreyfingu Húta sem ræður nú ríkjum í höfuðborginni Sanaa og norðvesturhluta landsins.

Borgarstríð hefur staðið yfir um árabil í Jemen, og magnaðist upp árið 2015 þehar bandalag Arabaríkja, undir stjórn Sádi-Arabíu, hóf hernaðaraðgerðir til að brjóta sókn Húta á bak aftur og koma forsetanum Hadi aftur til valda.

Áætlað er að rúmlega 100 þúsund manns hafi látist í átökunum sem leitt hefur til gríðarlegrar hungursneyðar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×